Færsluflokkur: Bloggar

Kominn í samkeppni við sjálfan mig

Jæja, nú er ég kominn í samkeppni við sjálfan mig í hér á Moggablogginu.  Ég er nefnilega búinn að opna aðra bloggsíðu í Þýskalandi þar sem ég skrifa á þýsku af miklum móð. Þetta er gert til gamans og í æfingaskyni.  Ég keypti mér þýskan prentvillupúka á netinu til þess að halda stafsetningar- og málfræði villum í lágmarki.  Mér gengur bara þokkalega í þessu og er nú þegar búinn að skrifa nokkra pistla.

 Slóðinn á þýskubloggið mitt er:

islaendisch.blog.de

Viel Spaß. 


Trabbasafarí

Þeir sem gripnir eru óstjórnlegri löngun til að taka í gripinn geta gert sér ferð til Berlínar og tekið þátt í svokölluðu Trabbasafarí-i og skoðað í leiðinni "Berlin Wild East."

http://www.visitberlin.de/deutsch/sightseeing/d_si_stadterkundungen_einmal-anders.php

 

 

 


mbl.is Trabant á stórafmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Ingi bjargar eigin skinni.

Nú er REI-málið og borgarstjórnarslitin farin að skýrast þannig að nokkuð heilsteypt mynd blasir við.  Þannig er að fólk í pólitík gætir fyrst sinna hagsmuna, síðan flokksins og síðast almennings.  Önnur forgangsröð telst til undantekninga.  Ljóst er að stjórnendur REI gættu vel sinna hagsmuna þegar þeir voru að véla með samruna REI og GGE.  Vildu að sameiningin rynni í gegn eins og þeir höfðu lagt hana upp og höfðu kynningu málsins fyrir sveitasjórnarmönnum álíka upplýsandi og grenndarkynningar eru hafðar í Kópavogi fyrir bæjarbúa.  Ljóst er að borgarstjórinn (bráðum fyrrverandi) höndlaði ekki málið sem skyldi og var einfaldlega of bláeygður gagnvart þeim hráskinnaleik sem var í gangi.  Restin af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins fannst vera farið á bak við sig þegar gjörningurinn er kynntur fyrir þeim og afleiðingin er sú að þau vantraust skapast milli þeirra og oddvitanna tveggja í borgarstjórn.  Ljóst má vera að einhverjar þreifingar voru að hálfu borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins með myndun nýs meirihluta í borginni sem framsóknarmenn verða áskynja um.  Þar sem Björn Ingi metur samstarfið ekki lengur traust og REI-málið í uppnámi, kýs hann að slíta samstarfinu við sjálfstæðisflokkinn þegar Don Alfredo er búinn að koma nýjum meirihluta í kring í stað þess að eiga það á hættu að sjálfstæðismenn verði fyrri til og hann endi áhrifalítill og einangraður í nýjum minnihluta.


Sunnudagsbíó

Ég er ánægður með þennan nýja dagskrárlið frá Sjónvarpinu þar sem mér sýnist vera stefnan að sýna myndir frá öðrum löndum en BNA og hlífa þjóðinni við endalausum Hollywood myndum. Í gær var sýnd hörkugóð norsk mynd sem ég ætla að leyfa mér að gefa 5 stjörnur, 4 fyrir myndina sjálfa og 1 fyrir að vera ekki Hollywood mynd. Megi Sjónvarpið halda áfram að sýna góðar bíómyndir hvaðanæva að úr heiminum nema BNA á sunnudagskvöldum, enda er af nógu að taka og veita þjóðinni þannig smá hvíld frá útvötnuðum og útjöskuðum Hollywood myndum.

AHMADINEDSCHAD á vini í New York sem að öllu jöfnu eru taldir til erkifjenda hans

1-IMG_0226Ahmadinedschad fékk ekki bara fjandsamlegar móttökur í New York um daginn.  Hann var líka boðinn velkomminn af hópi Gyðinga í New York sem buðu honum til fundar á Intercontinental Holtel og fór vel á með þeim eftir því sem ég kemst næst.  Þetta eru strangtrúaðir Gyðingar sem hafa hina mestu skömm á Zíonisma og telja hann í ganga í berhögg við Gyðingdóm eða Judaism.  Að þeirra dómi er Zíonisminn 100 ára gömul stjórnmálastefna sem einkennist af yfirgangi og ofbeldi.

Þetta fer ekki hátt í fréttum og er alveg nýtt fyrir mér að vinskapur og virðing skuli ríkja milli Gyðinga og Múslima.  Vandamálið virðist því ekki vera trúarbrögðin sem slík heldur þær stjórnmálastefnur sem frá trúarbrögðunum eru runnar.  Má þar helstar nefna Íslamisma og Zíonisma.

Hér er svo hlekkur á vefsíðu sem greinir nánar frá fundinum og skoðunum þessara Gyðinga.

http://www.nkusa.org/activities/Meetings/20070924Ahmadinejad.cfm


Endurskoða þarf stigagjöfina í Formúlu 1

Nú þegar staðan í stigakeppni ökuþór er skoðuð kemur í ljós að Lewis Hamilton hefur 18 stiga forskot á Kimi Räikkönnen þrátt fyrir að sigrarnir séu 2 á móti 3. Þó svo að Kimi ynni öll þau 8 mót sem eftir eru, dygði það honum ekki til sigurs í stigakeppni ökuþóra ef Lewis næði jafnan öðru sætinu. Staðan liti þá svona út: Lewis Hamilton 134 stig og 2 sigrar, Kimi Räikönnen 132 stig og 11 sigrar. Þetta sýnir hve erfitt það er fyrir ökuþóra að vinna upp forskot keppinauts í toppbaráttunni ef bilanir í bíl hafa sett strik í reikninginn. 1 bilun í bíl getur kostað ökuþór 10 stig og 5 sigra getur þurft til að vinna það upp ef keppnin er hörð. Ef 1. sæti skilaði 4 stigum umfram 2. sætið eins og áður var, væri munurinn á þeim félögum 16 stig og í versta falli þyrfti 4 sigra til að vinna það upp. Fyrst og fremst eru það bílavandræði keppinautanna sem hafa skilað Lewis þessu mikla forskoti, en ekki eigin yfirburðir. Fernando Alonso sagðist hafa verið mjög heppinn í fyrra að vinna heimsmeistaratitilinn, en mótorbilun hjá Michael Schumacher tryggði honum titilinn þegar allt útlit var fyrir að hann myndi ganga honum úr greipum. Spurning er hvort ökuþórar vilji vinna heimsmeistaratitilinn á þeim forsendum. Ef ekki, þá ætti að sigur í móti að skila meira forskoti í stigakeppninni en það gerir í dag, þannig að yfirgnæfandi líkur verði á að sá ökuþór sem oftast sigrar í mótaröðinni verði heimsmeistari.

David Coulthard lét þau orð eitt sinn falla að flestar þær breytingar á reglum í Formúlunni sem gerðar hafa verið hin síðari ár, hafi virkað hamlandi á ökumenn og sérstaklega þá bestu. Þar er ég alveg sammála honum.



mbl.is Räikkönen hafði betur í taktískri rimmu við Alonso
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Berlínarblogg númer sex

Ég hef eytt síðustu dögunum hér í Berlín í að skoða söfn.  Í gær skoði ég Berliner Dom sem slær nú Reichstag alveg út hvað mikilfengleik varðar.  Kirkjan er skreytt með fjöldan öllum af styttum bæði að utan sem innan.  Skreytingarnar og flúrið er nánast yfirþyrmandi og er þetta þó mótmælendakirkja.  Þeir sem heimsækja Berlín ættu ekki að láta hjá líða að skoða Berliner Dom.  Þegar búið var að henda mér út úr Berliner Dom hrökklaðist ég yfir ánna Spree og lenti inn á safni hjá kommúnistunum sem kallast DDR Museum og varðveitir minjar frá gullaldarárum Austurþýska alþýðulýðveldisins.  Trabbinn var eitt af stássum safnsins og var það tekið fram að austurþýskir verkfræðingar töldu að eftir því sem færri íhlutir væru í bílnum, þeim mun betra, því þá nefnilega bilaði Trabbinn síður.  Þess vegna var ekki verið að setja óþarfa eins og bensínmæli í Trabban.  Þó minnir mig að bensínmælir og öskubakkar aftur í, hafi komið í De Lux útgáfunni þegar leið fram á seinni hluta 20. aldarinnar.  Gaman var líka að lesa um uppeldi þegnanna  sem ríkið stóð fyrir frá unga aldri langt fram á fullorðins ár.  Allt gekk þetta út á að efla félagsandann og samheldnina.  Öll börn voru sett á ríkisleikskóla og fyrsta æfingin í félagsfærni var að ganga sameiginlega örna sinna.  Enginn mátti standa upp af koppnum fyrr enn sá síðasti hafði gert stykkin sín.  Ýmislegt var svo gert á vinnustöðum til að efla menn í trúnni og dæmi um það var  að vinnufélögum var nánast gerst skylt að verja hátíðisdögum saman með einhverju tilstandi.  DDR safnið sér lítið og skemmtilegt og mæli ég með því fyrir alla, jafnvel þá sem eru búnir að fá upp í háls af söfnum.

Í dag endaði ég svo á því að skoða sögusafnið í Berlín, en það er stærra en svo að hægt sé að gleypa það í einum bita.  Þetta safn útheimtir nokkrar heimsóknir ef vel á að vera.  Þeir sem hafa engan áhuga á söfnum og sögu ættu að láta þetta vera.


Berlínarblogg númer fimm - Knut og hans venner.

KnuturÍ dag er rigningardagur, en í gær var sól og heitt.  Vitandi að þetta yrði svona ákvað ég gær að fara í dýragarðinn í Vestur-Berlín og sjá ísbjarnarhúninn Knút.  Ég giska á að hitinn hafi verið um 30° þegar ég var í dýragarðinum og það hafði sýn áhrif á dýrin.  Heimskautaúlfurinn til dæmis lá afvelta í fleti sínu, algjörlega út úr heiminum og engu líkar en hann væri með sótthita.  Stóru kattardýrin voru öll rænulaus eins og þeirra er háttur mestan hluta sólarhringsins, ég tala nú ekki um þegar heitt er í veðri.  Knútur var líka hið mesta letiblóð og lá á meltunni í svefnmóki.  Í þriðju heimsókn minni til hans hafði hann rankað við sér og virti fyrir sér áhorfendur í hinum mestu makindum, strauk sér svo í framan með hrammnum eins og syfjaður krakki, velti sér á hina hliðina og hélt svo áfram að sofa.  Kútur hefur mikið aðdráttarafl í dýragarðinum og fengi hann tekjurnar af öllum þessum heimsóknum sjálfur gæti ég tekið undir með hinum þýsku sem segja: "Knut tut gut." sem útleggst á okkar ylhýra: Knútur gerið það gott.

 

Aparnir voru heldur ekki í neinu stuði í að skemmta mér og hafði ég áhyggjur á geðheilsu sumra þeirra, því engu líkara var ein þeir væru að kafna úr þunglyndi.  Ein górillan pissaði þó fyrir mig meðan hún japlaði á einhverju moði sem segja má að hafi verði það eina sem var í boði.


Berlínarblogg númer fjögur

Das Leben der AnderenÍ gær keypti ég mér kvikmyndina "Das Leben der Anderen" og horfði á hana í fartölvunni sem ég hef undir höndum.  Þýsku kennarinn minn sagði mér að hún hafi að stórum hluta verið tekin hér í götunni innan af þeirri þar sem ég bý og kíkti ég á tökustaðinn núna áðan mér til gamans.  Myndin fjallar í stuttu máli um njósnir Stasi á leikritaskáldi og sambýliskonu hans sem var leikkona og hvernig upplifun njósnaranns á lífi þeirra breytir viðhorfi hans til verka Stasi.Sem sagt frábær mynd fyrir þá sem skilja þýsku, en hinir verða bara að bíða og vona að hún verði sýnd einhvertímann í sjónvarpinu með íslensku texta.  Svo má líka athuga hvort hún er til á hinum svokölluðu myndbandsleigum.

Berlínarblogg númer þrjú

Ég kíkti nú fyrir stundu inn á bloggið hans Egils Helgasonar, en hann byrjaði að skrifa hér á Moggabloggið eftir að hafa verið hent út af Vísisblogginu.  í fyrstu eiginlegu færslunni talaði hann um að hann myndi lítið hafa sig í frammi hér á Moggablogginu og ekki sækjast eftir því að komast ofarlega á vinsældalistann.  Annað hefur nú komið á daginn og er Egill nú í öðru sæti á vinsældalistanum og hefur skrifað margar færslur á dag undanfarna daga meðan hann hefur dvalið hér í Berlín.  Mér finnst það hið besta mál enda kann Egill frá mörgu skemmtilegu að segja.

Þriðja Berlínarbloggið mitt er viðleitni mín til að veita honum smá samkeppni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband