Færsluflokkur: Bloggar

Berlínarblogg númer tvö

Þegar ég var að undirbúa ferðina til Berlínar síðla veturs rakst ég á málaskóla hér í Berlín sem bauð einkatíma á 30 evrur kennslustundina.  Ég ákvað því að hafa fríið hér tvær vikur og taka tvo tíma á dag í þýsku.  Nú er ég búinn að taka helminginn af tímunum og hef verið afskaplega ánægður með það sem komið er, enda heppinn með kennara.  Þar sem ég skil skrifaða og talaða þýsku þokkalega vel vildi ég að áherslan yrði á talmálið sem ég hef litla þjálfun hlotið í.  Í þýsku eru þrjú „S“ hljóð og í ljós kom að ég rugla þeim stundum saman.  Það helsta sem ég hef talað um í tímunum er jarðfærði og saga Íslands.  Í jarðfræðihlutanum mynntist ég á Bláa Lónið og sýndi kennaranum myndir af því ásamt þeim húðvörum sem framleiddar eru í tengslum við það.  Sýndi kennarinn því mikinn áhuga og geta lesendur þá væntanlega getið sér til um af hvoru kyninu hann er. 

Vikings-VoyagesÍ söguhlutanum fjallaði ég meðal annars um landafundina í vestri, en fram kemur í Grænlendingasögu að í för með Leifi heppna var maður nokkur er nefndur var Tyrkir Suðmaðr.  Eftir að hafa fundið Helluland og Markland tóku þeir land nokkru sunnar og gerðu sér þar bústað.  Varð þá Tyrkir viðskila við hópinn, en hann taldi alls 35 manns.  Enginn vissi hvað orðið hafði um manninn og kunni Leifur því stórilla að fóstri sinn skildi týndur vera.  Lét hann þá gera út flokk manna að leita að honum.  Er mennirnir gengu fá skála til að hefja leitina mættu þeir Tyrki og var honum vel fagnað. Ætla ég mér nú að  vitna ég beint í söguna með leyfi höfundar.

Þá mælti Leifr til hans: "Hví varstu svá seinn, fóstri minn, ok fráskili föruneytinu?"
   Hann talaði þá fyrst lengi á þýzku ok skaut marga vega augunum ok gretti sik. En þeir skilðu eigi, hvat er hann sagði.
   Hann mælti þá á norrænu, er stund leið: "Ek var genginn eigi miklu lengra en þit. Kann ek nökkur nýnæmi at segja. Ek fann vínvið ok vínber."
   "Mun þat satt, fóstri minn?" kvað Leifr.
   "At vísu er þat satt," kvað hann, "því at ek var þar fæddr, er hvárki skorti vínvið né vínber".
   Nú sváfu þeir af þá nótt, en um morguninn mælti Leifr við háseta sína: "Nú skal hafa tvennar sýslur fram, ok skal sinn dag hvárt, lesa vínber eða höggva við ok fella mörkina, svá at þat verði farmr til skips míns." Ok þetta var ráðs tekit.
   Svá er sagt, at eftirbátr þeira var fylldr af vínberjum. Nú var höggvinn farmr á skipit.
   Ok er várar, þá bjuggust þeir ok sigldu burt, ok gaf Leifr nafn landinu eftir landkostum ok kallaði Vínland, sigla nú síðan í haf, ok gaf þeim vel byri, þar til er þeir sá Grænland ok fjöll undir jöklum.

 

Af þessu sögubroti má ráða og teknu tilliti til víkingaferða, að Tyrkir Suðmaðr hafi komið frá Suður-Þýskalandi, nánar tiltekið úr Rínardalnum eða þar í grend, en það er einmitt það svæði sem kennarinn kemur frá.  Þjóverjar hafa því átt smá hlut í landafundunum í vestri með okkur Íslendingum og lagt sinn skerf til nafngifta.


Berlínarblogg númer eitt

Um þessar mundir er ég staddur í Berlín og er byrjaður að ná áttum í borginni.  Í gær fór ég niður í miðborgina og gekk í gegnum Brandenborgarhliðið og garðinn þar vestur af.  Skammt frá þinghúsinu skoðaði ég  minningarreit rússneskra hermanna sem skreyttur með skriðdrekum og fallbyssum úr stríðinu.  Þar las ég að í Þýskalandi væru um það bil 500 slíkir minningarreitir um rússneska hermenn.  Ég hef ekki enn séð minningarreiti um þýska hermenn, en ætla að spyrjast fyrir um þá.  Ég er ekki sáttur við þessa mynd sem oft er dregin upp að sigurvegarar seinni heimstyrjaldarinnar hafi verið hetjur en hinir sigruðu skúrkar.   Staðreyndin er sú að sigurvegararnir eru líka sekir um stríðsglæpi en hafa aldrei þurft að svara fyrir þá. Hótelið sem ég gisti á er í austurhluta borgarinnar nánar tiltekið í Friedrichshain.  Hér er urmull af veitingastöðum og litum verslunum sem reknar eru af útlendingum og þar virðist alltaf vera opið.  Ég hitti í fyrradag ungan mann frá Víetnam sem vinnur í lítilli ávaxta- og grænmetisverslun hjá samlanda sínum og hefur starfað hér í 2 ár.  Hann vinnur alla daga frá 7 á morgnanna til 11 kvöldin, en vonast til að komast í aðra vinnu eftir um eitt ár eða svo.  Ég spurði hann fyrst þegar ég hitti hann, en þá var klukkan rúmlega 9 að kvöldi dags, hve lengi væri opið og þá svaraði hann „drei Uhr zwanzig“ en átti náttúrlega við „dreiundzwanzig Uhr“  Ég  fékk mér um daginn í gogginn á Kebab stað í eigu Tyrkja og tókst mér að kjafta mig inn á með því að sýna áhuga að Tyrklandi.  Þegar ég kvaddi þá spurðu þeir hve lengi ég dveldi hérna og þegar ég hafði svarað því, sögðu þeir mér að ég væri alltaf velkomminn hjá þeim og loka orðin voru: „Wir sind immer hier.“

Jibbí

Þá erum við loksins laus við Framsóknarflokkinn úr ríkisstjórn.

Megi hann vera sem lengst í stjórnarandstöðu.
mbl.is Síðasti ríkisráðsfundur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geiri the Gentleman

Geiri virðist vera búinn að finna sætustu stelpuna á ballinu og hættur að eltast við það sem er hálfónýtt en átti að gera sama gagn.
mbl.is Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast væntanlega á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feministum boðið upp í dans

 

Undanfarið hef ég fylgst með bloggsíðum nokkurra femínista hér á moggablogginu og oft er umræðan þar býsna fjörug en misjafnlega málefnaleg.  Þar sem ég er ekki vel lesinn í kvenna- og kynjafræðum langar mig að setja fram 10 spurningar um femínisma/jafnréttismál og vonast ég til að femínistar láti ekki á sér standa því ég efast ekki um að þeir hafi svör á reiðum höndum. 

Athugasemdakerfið er öllum opið. 

  • 1. Er feðraveldi til staðar á Íslandi og hver eru áhrif þess í íslensku samfélagi?
  • 2. Er femínismi kvennaréttindabarátta eða jafnréttisbarátta?
  • 3. Af hverju er eðlilegt að beita femínísku sjónarhorni til að skoða stöðu kynjanna í kynjafræði? Sjá vef háskólans http://www.felags.hi.is/page/kynjafraedi
  • 4. Að hve miklu leiti er kynjaslagsíðan í stjórnmálum á ábyrgð kvenna annars vegar og karla hinsvegar?
  • 5. Á hvaða sviðum þjóðfélagsins er æskilegt að kynjahlutfallið sé jafnt?
  • 6. Hver er helsta ástæða launamunar kynjanna?
  • 7. Er lagasetning besta leiðin til að koma á jafnrétti kynjanna?
  • 8. Hvernig skilja femínistar hugtökin erotik og pornography - eru skýr skil þar á milli?
  • 9. Að hve miklu leiti er vændi á ábyrgð seljanda versus kaupanda?
  • 10. Hvernig má bæta réttarstöðu kvenna í nauðgunarmálum?

 

 Svarendum er að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hve mörgum spurningum þeir svara og gott væri ef þeir myndu setja númer spurningar fyrir framan svar sitt til glöggvunar fyrir lesendur.


Sjónvarpið með frábæra dagskrá í gærkvöldi

Matthias BrandtNú er Dýrahringurinn aftur kominn á skjáinn.  Þetta eru ágætis þættir og góð tilbreyting frá öllum þessum ameríska vaðli sem gengur flesta hina daga vikunnar.  Seinni myndin var þýsk sjónvarpsmynd frá 2004 byggð á sannsögulegum atburðum og bar titilinn In Sachen Kaminski eða Kaminskimálið.  Þar segir frá hjónum sem misstu forræðið yfir dóttur sinni á grundvelli takmarkaðra vitsmuna og baráttu þeirra við að endurheimta forræðið.  Vitgranni faðirinn var leikin af Matthias Brandt sem ku vera sonur Willy Brandts fyrrum kanslara Þýskalands.  Sjaldan hef ég séð jafn sannfærandi og frábæran leik á skjánum.  Það var engu líkara en maðurinn væri raunverulega þroskaheftur.  Sagan var átakanleg og lýsti ágætlega brotalömum í þýsku réttarkerfi, en þau hjónin náðu ekki rétti sýnum fyrr en málið fór fyrir mannréttindadómstólinn í Straasburg eftir að hafa farið í gegnum þrjú dómstig í Þýskalandi.

Fáránlegt fyrirkomulag á stigagjöf í Formúlunni

Þessi staða sýnir hve stigagjöfin í formúlunni er fáránleg.  Fáránlegt að maður sem aldrei hefur unnið kappakstur skuli leiða stigakeppnina.  Annað sætið gefur alltof mörg stig miðað við það fyrsta.  Það er yfirleitt mikill munur á gleði þess sem sigra og þess sem er í öðru sæti.  Stigagjöfin á að endurspegla það.  Þessari vitleysu var komið á til að yfirburðaökumenn eins og Michael Schumacher gerði ekki út um heimsmeistaratitilinn á miðju tímabili.


mbl.is Massa sigrar en Hamilton er einn efstur í heimsmeistarakeppni ökuþóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hólmsheiðarorrusta

Hrólfur digriLaust eftir hádegi þann 4. maí 2007 nálguðust herflokkar tveir hvorn annan í þungbúnu verðri við háls nokkurn er kenndur er við Geitur.  Annar flokkurinn er kallar sig Berserki, laut forystu skæruliðaforingjans Hrólfs digra og taldi hann um tylft manna. 

Hinn flokkurinn er líka taldist vera um tylft manna, laut hann forystu ofurmennisins Þormóðs þursasprengs.  Voru þeir nefndir Grænhúfur.  Þormóður

Laust flokkum þessum saman á heiði nokkurri er kennd er við Garðar Hólm í svo miklum bardaga að eigi hefur í annan tíma viðlíka vopnagnýr heyrst á Íslandi.  Vélbyssur geltu, handsprengjum rigndi og kappar orguðu svo tröllin skelfdust í fjöllunum. 

Berserkir hófu þegar leiftursókn gegn Grænhúfum sem vörðust af kappi og með harðfylgi tókst þeim hrinda sókn Berserkja.  Tókst þá með þeim allharður bardagi þar sem líf og limir fuku.  Lauk þeirra fyrstu viðureign með því að Berserkir lutu í gras fyrir Grænhúfum og þótti hinum fyrrnefndu það hin mesta hneisa.  Söfnuðust allir fallnir og særðir til Valhallar og risu upp að nýju með tíu líf.

BerserkirHófst þá hinn annar bardagi.  Berserkir börðu nú á brjóst sér, bitu í byssuskeftin og formæltu Grænhúfum við guð sinn, minnugir hneisu þeirrar er þeir urðu að þola af hendi þeirra úr hinum fyrsta bardaga.  Skipti það engum togum að Berserkir gersigruðu Grænhúfur í snörpum bardaga þar sem allt fauk af sem af gat fokið.  Söfnuðust síðan allir kapparnir til Valhallar og risu upp sem í hið fyrra sinn.

Grænhúfum þótti illa að sér vegið og sóru þess dýra eið að færa GrænhúfurÞormóði þursaspreng höfuðið af Hrólfi digra foringja Berserkja á stjaka, þannig að ekki stæði annað eftir af flokki þeim en höfuðlaus her.  Tókst Grænhúfum með slægð, fjölkynngi og fordæðuskap að grípa Hróf digra í bólinu.  Náðu þeir slíku taki um hreðjar honum að gat hann sig hvergi hreyft, heldur aðeins stunið.  Stýfðu þeir þá af honum höfuðið, fyrst hið efra og síðan hið neðra.  Var Hrólfur digri þar með allur og var það mikill skaði.  Er Berserkir sáu foringja sinn fallinn misstu þeir móðinn og gerðu Grænhúfur þá þar með út um hinn þriðja bardaga.

 

Eftir að menn höfðu safnast til Valhallar í þriðja sinn og endurnýjast af lífum, þreki og þrótti, hófst hinn fjórði bardagi.  Hétu Berserkir því frammi fyrir Nirði, Frigg og Freyju að hefna Hrólfs hins digra Hrollurgrimmilega.   Fylltust þeir þá slíkum vígamóði að aldrei hefur þvílíkur atgangur sést í bardaga á landi voru.  Hrollaugur hinn grimmi gekk berserksgang og tróð allar þær Grænhúfur undir fótum sér er fyrir honum urðu uns hann komst í færi við Þormóð þursaspreng.  Kastaði hann þá að honum handsprengjum hverri á fætur annarri uns Þormóður stóð eftir óvígur með iðrin úti.  Vatt Hrollaugur sér þá að honum og festi görn hans við níðstöng þá er hann hafði reisa látið í fordæðuskap gegn Hrólfi digra.  Lét Hrollaugur grimmi þvínæst Þormóð þursaspreng ganga hringi í kring um stöngina uns öll görnin var úr honum rakin.  Lét þá Þormóður þar líf sín öll með mikilli hreysti.  Grænhúfur þær sem ekki hafði tekist að murka úr lífin, flúðu nú af hólmi eins og rófulausir hundar.  Lauk þar með hinum fjórða bardaga.

KapparUm síðir söfnuðust svo allir kapparnir aftur saman í Valhöll og var þá dagur að kveldi kominn.  Upphófst þá ölteiti mikið þar sem menn drukku hvers annars skál og sungu dróttkvæðar vísur.  Ágerðist teitið eftir því sem á kvöldið leið og þegar nótt var komin svifu menn inn í unaðslegt algleymi fyrir tilstilli Opals og Tópas.

Grendarkynnig í mýflugumynd

Nú um þessar mundir er verið að reisa þá hæstu byggingu sem byggð hefur verið á Íslandi til þessa við Smáratorg.  Þessi bygging á að verða 20 hæðir eftir því sem ég best veit.  Þar að auki eru framkvæmdir að hefjast við annað háhýsi í næsta nágrenni eða við Smáralindina, en það á að verða 15 hæðir.  Í framhaldi má geta þess að hæstu fjölbýlishús í hverfinu eru 13 hæðir.  Nú vill svo til að ég er íbúi í hverfinu og þær upplýsingar sem Kópavogsbær hefur látið mér í té varðandi þessar framkvæmir var lítill grænn miði á einhverju óljósu stofnanamáli.  Ég gerði ráð fyrir að þarna væri verið að vísa til byggingarinnar við Smáratorg sem ég hafði heyrt um.  Þar sem hún átti upphaflega að vera 14 hæðir, þá sá ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir.  Síðan les ég þó nokkru seinna í Fréttablaðinu að samþykkt hafi verið af bæjaryfirvöldum að reisa 15 hæða háhýsi við norðvestur enda Smáralindarinnar.  Þegar ég spurði íbúa hér í húsinu hvort þeir hefðu heyrt um þessa byggingu þá kannaðist kona hér í húsinu við að hangið hafi bréf um þetta fyrir einhverjum mánuðum á töflu sem staðsett er á fyrstu hæð hússins. Þessar byggingar vöktu nokkra athygli fjölmiðlamanna vegna hæðar sinnar og þegar Gunnar Birgirsson var inntur eftir viðbrögðum íbúa í hverfisins, þá var svarið að engar athugasemdir hefðu borist.  Í því tilfelli var sennilega aðeins um Smáratorgsbygginguna að ræða. Ég hef síðan heyrt um mótmælum frá tveimur aðilum úr hverfinu vegna Smáralindarbyggingarinnar. Ljóst má vera af framansögðu að svokölluð grendarkynnig vegna þessara bygginga hefur verið í algjörri mýflugumynd og sjálfsagt hefur verið sá háttur verið hafður á til þess að vekja sem minnst viðbrögð meðal íbúanna.   Ég leyfi mér að efast um að þessar bygginar hefðu verið samþykktar í þessari hæð af íbúum hverfisins hefði eðlilega verið staðið að grendarkynningunni og fólk raunverulega vitað hvað stæði til. Ljóst er að skyldur sveitarfélagsins við íbúana í þessum efnum eru ekki miklar og sama má segja um rétt íbúanna til áhrifa.  Þessu þarf að breyta.

Borgarstjóri virðist ekki skilja samhengi hlutanna

Í kvöldfréttum Sjónvarpsins var viðtal við borgarstórann í Reykjavík vegna hækkaðs lóðaverðs hjá Reykjavíkurborg, en það er nú töluvert hærra en hann talaði um að það yrði þegar kostningabaráttan stóð sem hæst.  Borgarstjóri gaf þær skýringar þetta nýja verð væri útreiknað kostnaðarverð og forsendur nú væru aðrar en þegar kostningar voru framundan.  Síðan bætti hann við að það væri ekki stefna núverandi borgarstjórnar að græða á lóðabraski eins og gert var í tíð R-listanns (Blessuð sé minning hans).  “R-listinn græddi á lóðabraski” voru orð hans.  Skoðum þetta aðeins nánar. 

Í fyrsta lagi var það ekki R-listinn sem græddi á sölu lóða heldur Reykjavíkurborg ef hægt er að tala um gróða í þessu samhengi.  Lóðirnar sem voru seldar voru verðmætt land í opinberri eigu.   

Í öðrulagi hver átti að “græða” á þessum viðskiptum ef ekki Reykjavíkurborg?  Áttu fáir útvaldir húsbyggjendur að gera það?  Ef einn hagnast ekki þá gerir bara annar það.   

Í þriðja lagi hver er munurinn að selja land eða fyrirtæki í opinberri eigu?  Átti þá ekki samkvæmt þessari kostnaðarverðspólitík að selja Bæjarútgerðina og önnur borgarfyrirtæki sem seld voru á sínum tíma á kostnaðarverði? (kostaðinum sem hlaust af því að selja þau) 

Samkvæmt þessari hugmyndafræði er ónotað byggingarland Reykjavíkurborgar einskis virð og aðeins þarf að ná inn fyrir þeim kostnaðir sem fylgir því skipuleggja hverfi að standsetja lóðir.  Það mætti líka kallan hana “Uss – það er ljótt að græða” 

Nei, nær væri að selja lóðir á markaðsverði hvers tíma og nota síðan “gróðann” til lækka skatta á borgarbúa.  Það kemur þeim öllum til góða, ekki bara fáum útvöldum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband