Berlínarblogg númer sex

Ég hef eytt síðustu dögunum hér í Berlín í að skoða söfn.  Í gær skoði ég Berliner Dom sem slær nú Reichstag alveg út hvað mikilfengleik varðar.  Kirkjan er skreytt með fjöldan öllum af styttum bæði að utan sem innan.  Skreytingarnar og flúrið er nánast yfirþyrmandi og er þetta þó mótmælendakirkja.  Þeir sem heimsækja Berlín ættu ekki að láta hjá líða að skoða Berliner Dom.  Þegar búið var að henda mér út úr Berliner Dom hrökklaðist ég yfir ánna Spree og lenti inn á safni hjá kommúnistunum sem kallast DDR Museum og varðveitir minjar frá gullaldarárum Austurþýska alþýðulýðveldisins.  Trabbinn var eitt af stássum safnsins og var það tekið fram að austurþýskir verkfræðingar töldu að eftir því sem færri íhlutir væru í bílnum, þeim mun betra, því þá nefnilega bilaði Trabbinn síður.  Þess vegna var ekki verið að setja óþarfa eins og bensínmæli í Trabban.  Þó minnir mig að bensínmælir og öskubakkar aftur í, hafi komið í De Lux útgáfunni þegar leið fram á seinni hluta 20. aldarinnar.  Gaman var líka að lesa um uppeldi þegnanna  sem ríkið stóð fyrir frá unga aldri langt fram á fullorðins ár.  Allt gekk þetta út á að efla félagsandann og samheldnina.  Öll börn voru sett á ríkisleikskóla og fyrsta æfingin í félagsfærni var að ganga sameiginlega örna sinna.  Enginn mátti standa upp af koppnum fyrr enn sá síðasti hafði gert stykkin sín.  Ýmislegt var svo gert á vinnustöðum til að efla menn í trúnni og dæmi um það var  að vinnufélögum var nánast gerst skylt að verja hátíðisdögum saman með einhverju tilstandi.  DDR safnið sér lítið og skemmtilegt og mæli ég með því fyrir alla, jafnvel þá sem eru búnir að fá upp í háls af söfnum.

Í dag endaði ég svo á því að skoða sögusafnið í Berlín, en það er stærra en svo að hægt sé að gleypa það í einum bita.  Þetta safn útheimtir nokkrar heimsóknir ef vel á að vera.  Þeir sem hafa engan áhuga á söfnum og sögu ættu að láta þetta vera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband