Berlínarblogg númer tvö

Þegar ég var að undirbúa ferðina til Berlínar síðla veturs rakst ég á málaskóla hér í Berlín sem bauð einkatíma á 30 evrur kennslustundina.  Ég ákvað því að hafa fríið hér tvær vikur og taka tvo tíma á dag í þýsku.  Nú er ég búinn að taka helminginn af tímunum og hef verið afskaplega ánægður með það sem komið er, enda heppinn með kennara.  Þar sem ég skil skrifaða og talaða þýsku þokkalega vel vildi ég að áherslan yrði á talmálið sem ég hef litla þjálfun hlotið í.  Í þýsku eru þrjú „S“ hljóð og í ljós kom að ég rugla þeim stundum saman.  Það helsta sem ég hef talað um í tímunum er jarðfærði og saga Íslands.  Í jarðfræðihlutanum mynntist ég á Bláa Lónið og sýndi kennaranum myndir af því ásamt þeim húðvörum sem framleiddar eru í tengslum við það.  Sýndi kennarinn því mikinn áhuga og geta lesendur þá væntanlega getið sér til um af hvoru kyninu hann er. 

Vikings-VoyagesÍ söguhlutanum fjallaði ég meðal annars um landafundina í vestri, en fram kemur í Grænlendingasögu að í för með Leifi heppna var maður nokkur er nefndur var Tyrkir Suðmaðr.  Eftir að hafa fundið Helluland og Markland tóku þeir land nokkru sunnar og gerðu sér þar bústað.  Varð þá Tyrkir viðskila við hópinn, en hann taldi alls 35 manns.  Enginn vissi hvað orðið hafði um manninn og kunni Leifur því stórilla að fóstri sinn skildi týndur vera.  Lét hann þá gera út flokk manna að leita að honum.  Er mennirnir gengu fá skála til að hefja leitina mættu þeir Tyrki og var honum vel fagnað. Ætla ég mér nú að  vitna ég beint í söguna með leyfi höfundar.

Þá mælti Leifr til hans: "Hví varstu svá seinn, fóstri minn, ok fráskili föruneytinu?"
   Hann talaði þá fyrst lengi á þýzku ok skaut marga vega augunum ok gretti sik. En þeir skilðu eigi, hvat er hann sagði.
   Hann mælti þá á norrænu, er stund leið: "Ek var genginn eigi miklu lengra en þit. Kann ek nökkur nýnæmi at segja. Ek fann vínvið ok vínber."
   "Mun þat satt, fóstri minn?" kvað Leifr.
   "At vísu er þat satt," kvað hann, "því at ek var þar fæddr, er hvárki skorti vínvið né vínber".
   Nú sváfu þeir af þá nótt, en um morguninn mælti Leifr við háseta sína: "Nú skal hafa tvennar sýslur fram, ok skal sinn dag hvárt, lesa vínber eða höggva við ok fella mörkina, svá at þat verði farmr til skips míns." Ok þetta var ráðs tekit.
   Svá er sagt, at eftirbátr þeira var fylldr af vínberjum. Nú var höggvinn farmr á skipit.
   Ok er várar, þá bjuggust þeir ok sigldu burt, ok gaf Leifr nafn landinu eftir landkostum ok kallaði Vínland, sigla nú síðan í haf, ok gaf þeim vel byri, þar til er þeir sá Grænland ok fjöll undir jöklum.

 

Af þessu sögubroti má ráða og teknu tilliti til víkingaferða, að Tyrkir Suðmaðr hafi komið frá Suður-Þýskalandi, nánar tiltekið úr Rínardalnum eða þar í grend, en það er einmitt það svæði sem kennarinn kemur frá.  Þjóverjar hafa því átt smá hlut í landafundunum í vestri með okkur Íslendingum og lagt sinn skerf til nafngifta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband