Berlínarblogg númer eitt

Um þessar mundir er ég staddur í Berlín og er byrjaður að ná áttum í borginni.  Í gær fór ég niður í miðborgina og gekk í gegnum Brandenborgarhliðið og garðinn þar vestur af.  Skammt frá þinghúsinu skoðaði ég  minningarreit rússneskra hermanna sem skreyttur með skriðdrekum og fallbyssum úr stríðinu.  Þar las ég að í Þýskalandi væru um það bil 500 slíkir minningarreitir um rússneska hermenn.  Ég hef ekki enn séð minningarreiti um þýska hermenn, en ætla að spyrjast fyrir um þá.  Ég er ekki sáttur við þessa mynd sem oft er dregin upp að sigurvegarar seinni heimstyrjaldarinnar hafi verið hetjur en hinir sigruðu skúrkar.   Staðreyndin er sú að sigurvegararnir eru líka sekir um stríðsglæpi en hafa aldrei þurft að svara fyrir þá. Hótelið sem ég gisti á er í austurhluta borgarinnar nánar tiltekið í Friedrichshain.  Hér er urmull af veitingastöðum og litum verslunum sem reknar eru af útlendingum og þar virðist alltaf vera opið.  Ég hitti í fyrradag ungan mann frá Víetnam sem vinnur í lítilli ávaxta- og grænmetisverslun hjá samlanda sínum og hefur starfað hér í 2 ár.  Hann vinnur alla daga frá 7 á morgnanna til 11 kvöldin, en vonast til að komast í aðra vinnu eftir um eitt ár eða svo.  Ég spurði hann fyrst þegar ég hitti hann, en þá var klukkan rúmlega 9 að kvöldi dags, hve lengi væri opið og þá svaraði hann „drei Uhr zwanzig“ en átti náttúrlega við „dreiundzwanzig Uhr“  Ég  fékk mér um daginn í gogginn á Kebab stað í eigu Tyrkja og tókst mér að kjafta mig inn á með því að sýna áhuga að Tyrklandi.  Þegar ég kvaddi þá spurðu þeir hve lengi ég dveldi hérna og þegar ég hafði svarað því, sögðu þeir mér að ég væri alltaf velkomminn hjá þeim og loka orðin voru: „Wir sind immer hier.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband