Lóðaúthlutanir eru úrelt fyrirbrigði

Hvers vegna telja sumir sveitastjórnarmenn að eðlilegt sé að úthluta lóðum til húsbyggjenda á svokölluðu kostnaðarverði eftir reglum sem þeir sjálfir setja og breytast eftir því hverjir sitja við völd hverju sinni?  Sá sem fær úthlutað lóð getur þá keypt hana oft langt undir því verði sem hægt væri að fá fyrir hana á almennum markaði.  Með þessu móti er verið að færa útvöldum aðilum mun meiri verðmæti en þeir greiða fyrir.  Sem dæmi um þetta eru lóðir hér á höfuðborgarsvæðinu sem seldar eru á 10 milljónir en verðmæti þeirra er á bilinu 20 – 25 milljónir.  Hinn heppni húsbyggjandi getur síðar meir selt lóðina nú eða húsið sem hann byggir með hagnaði sem nemur á annan tug milljóna.

Hvað er í raun að gerast hér?  Ekkert annað en óeðlileg tilfærsla fjármuna úr einum vasa í annan.  Útvöldum aðlilum eru færð mikil verðmæti (mismunur á svokölluðu kostnaðarverði og markaðsverði) á kostnað þeirra sem í sveitarfélaginu búa. Finnst mönnum þetta sanngjarnt og eðlilegt?  Enginn heilvita maður selur lóð sem hann á að vermæti 20 – 25 milljóna á 10 milljónir nema í algjörri neyð.   

Nær væri að fela fasteignasölum þessi viðskipti þar sem lóðir til nýbygginga væru verðmetnar af fagmönnum eftir stærð, ástandi og staðsetningu rétt eins og gert er með húsnæði.  Þar með sætu allir við sama borð hvort sem um væri að ræða fyrirtæki eða einstaklinga og ásakanir um hagsmunatengs, vinargreiða og ósanngirni heyrðu sögunni til.  Auknar tekjur af sölu lóða gætu svo sveitarfélögin notað til að bæta þjónustuna við íbúana eða lækka við þá skatta.

Fyrir þá sem sjá ofsjónum yfir ásælni verktaka í lóðir undir einbýlishús, þá skal bent á að verktakar kaup lóðir undir fjölbýlishús, byggja á þeim og selja síðan almenningi.  Í framhaldi er þá rétt að spyrja hvot eitthvað óeðlilegt við þetta fyrirkomulag ef um einbýlishúsalóð er að ræða? 

Ef þessi lóðaúthlutunarpólitík á að vera fjölskyldustefna sem gerir fjölskyldufólki kleyft að byggja sér tiltölulega ódýrt sérbýli þá skal á það bent að slíkt felur í sér mismunun gagnvart því fólki sem einhverra hluta vegna kýs ekki eða á þess ekki kost að byggja sér einbýlishús, því ekki geta allir búið í einbýlishúsi.  Þar að auki eru margir húsbyggjendur býsna vel stætt fólk sem síst þarf á því að halda að fá fjármuni frá sveitarfélögunum í gegnum niðurgreiddar lóðir.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband