Nýja heimskreppan og launaveislan mikla

Það besta sem yfirstandandi heimskreppa gæti leit af sér eru endalok launaveislunnar miklu. Svallveislu sem staðið hefur árum saman og hófst fyrir mörgum árum í Bandaríkjunum. Þessir nýju borðsiðir bandarísku forstjóranna voru svo teknir upp handan Atlandsála í Evrópu undir yfirskini alþjóðlegar samkeppni. Það sama gerðist á Íslandi nokkrum árum síðar.

Í Evrópu var veislan í raun léleg stæling á þeirri bandarísku þar sem Evrópumenn voru vanir annars konar borðsiðum. Eitt og annað gleymdist í yfirfærslu nýju siðanna frá Ameríku. Helst vantaði að þeir sem nutu gætu risið undir herlegheitunum. Oft var langur vegur þar frá. En það breytti engu um mikilfengleik veislunnar hvort allt fór í vaskinn eður ei. Show must go on. Matseðillinn var alla jafnan þríréttaður, en stundum fjórréttaður. Fyrst komu himinhá föst laun í forrétt. Því næst bónusar og kaupréttarsamningar í aðalrétt. Í desert var svo vel útilátinn starfslokasamningur. Að lokum var svo sumum boðið í koníaksstofuna. Þar var þeim boðinn ómótstæðilegur eftirlaunasamningur sem endast skildi ævina út, enda ekki leggjandi á þessa menn að spara við sig munaðinn þegar heilsan færi að bresta.

Stjórnir fyrirtækjanna veittu viðurgerninginn ríkulega að eign sögn til að krækja í menn með fáheyrða yfirburði stjórnun og rekstri fyrirtækja. Samkeppnin um fólk væri mikil. Um tíma leit út fyrir að þessar skýringar ætti við rök að styðjast, því afkomutölur sumra fyrirtækja náðu áður óþekktum hæðum. Þó var alltaf eitthvað um menn væru ekki starfi sínu vaxnir. Þegar þeir voru látnir fara, var hinn ríkulegi starfslokasamningur oft eins og verðlaun fyrir öll axarsköftin sem þeir höfðu framið.

Nú þegar ný og alvarleg fjármálakreppa hefur hellst yfir heimsbyggðina hefur komið í ljós að ekki var til raunveruleg innistæða fyrir öllum ofsagróðanum. Tap fjárfestingafyrirtækjanna hefur verið gríðarlegt og nokkur þeirra íslensku standa tæpt. Einhver þeirra hafa orðið að leggja upp laupana. Snilli snillinganna er komin í bakið á þeim.

Nú er sú krafa uppi í Bandaríkjunum að stjórnendur mikilvægra fjármálastofnanna sem standa tæpt verði látnir víkja án allra starfslokasamninga. Ríkið taki stofnanirnar yfir til að koma í veg fyrir algjört hrun markaðarins. Þær verði síðan einkavæddar að nýju þegar holskeflan er gengin yfir og jafnvægi hefur verið komið á.

Sannleikurinn er sá að launaveislan hefur aldrei staðið undir sér. Forsendur hennar eru blekkingar. Enginn hefur slíka yfirburði sem hún gefur til kynna. Hin harða samkeppni um hæfa stjórnendur nær ekki heimálfanna á milli eins og haldið hefur verið fram. Stjórnendur í Evrópu eru almennt ekki samkeppnisfærir á bandaríkjamarkaði og geta því ekki tekið mið af launum þar. Það sama gildir um íslenska stjórnendur og erlenda markaði. Snilli snillinganna er stórlega orðum aukin. Tala ætti fremur um glanna og glannaskap og hafa launin í samræmi við það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessir menn voru bara engir snillingar.  Þeir komust í góðar stöður með hjálp vina og vandamanna og þáðu ríkuleg laun fyrir. 

Þeir sem eru raunverulegir snillingar eru þeir sem eru bestir til að stjórna undanhaldinu og þar með haldi tapinu í lágmarki.  Ég efa að þessir sem kallaðir hafa verið fjármálasnillingar geti þetta.  Þeir eru bestir til að leika sér með fé annarra og ódýrt lánsfé og eyða því út og suður.

Gunnar Afdal (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband