14.10.2007 | 15:01
Björn Ingi bjargar eigin skinni.
Nú er REI-málið og borgarstjórnarslitin farin að skýrast þannig að nokkuð heilsteypt mynd blasir við. Þannig er að fólk í pólitík gætir fyrst sinna hagsmuna, síðan flokksins og síðast almennings. Önnur forgangsröð telst til undantekninga. Ljóst er að stjórnendur REI gættu vel sinna hagsmuna þegar þeir voru að véla með samruna REI og GGE. Vildu að sameiningin rynni í gegn eins og þeir höfðu lagt hana upp og höfðu kynningu málsins fyrir sveitasjórnarmönnum álíka upplýsandi og grenndarkynningar eru hafðar í Kópavogi fyrir bæjarbúa. Ljóst er að borgarstjórinn (bráðum fyrrverandi) höndlaði ekki málið sem skyldi og var einfaldlega of bláeygður gagnvart þeim hráskinnaleik sem var í gangi. Restin af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins fannst vera farið á bak við sig þegar gjörningurinn er kynntur fyrir þeim og afleiðingin er sú að þau vantraust skapast milli þeirra og oddvitanna tveggja í borgarstjórn. Ljóst má vera að einhverjar þreifingar voru að hálfu borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins með myndun nýs meirihluta í borginni sem framsóknarmenn verða áskynja um. Þar sem Björn Ingi metur samstarfið ekki lengur traust og REI-málið í uppnámi, kýs hann að slíta samstarfinu við sjálfstæðisflokkinn þegar Don Alfredo er búinn að koma nýjum meirihluta í kring í stað þess að eiga það á hættu að sjálfstæðismenn verði fyrri til og hann endi áhrifalítill og einangraður í nýjum minnihluta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.