10.5.2007 | 22:39
Hólmsheiðarorrusta
Laust eftir hádegi þann 4. maí 2007 nálguðust herflokkar tveir hvorn annan í þungbúnu verðri við háls nokkurn er kenndur er við Geitur. Annar flokkurinn er kallar sig Berserki, laut forystu skæruliðaforingjans Hrólfs digra og taldi hann um tylft manna.
Hinn flokkurinn er líka taldist vera um tylft manna, laut hann forystu ofurmennisins Þormóðs þursasprengs. Voru þeir nefndir Grænhúfur.
Laust flokkum þessum saman á heiði nokkurri er kennd er við Garðar Hólm í svo miklum bardaga að eigi hefur í annan tíma viðlíka vopnagnýr heyrst á Íslandi. Vélbyssur geltu, handsprengjum rigndi og kappar orguðu svo tröllin skelfdust í fjöllunum.
Berserkir hófu þegar leiftursókn gegn Grænhúfum sem vörðust af kappi og með harðfylgi tókst þeim hrinda sókn Berserkja. Tókst þá með þeim allharður bardagi þar sem líf og limir fuku. Lauk þeirra fyrstu viðureign með því að Berserkir lutu í gras fyrir Grænhúfum og þótti hinum fyrrnefndu það hin mesta hneisa. Söfnuðust allir fallnir og særðir til Valhallar og risu upp að nýju með tíu líf.
Hófst þá hinn annar bardagi. Berserkir börðu nú á brjóst sér, bitu í byssuskeftin og formæltu Grænhúfum við guð sinn, minnugir hneisu þeirrar er þeir urðu að þola af hendi þeirra úr hinum fyrsta bardaga. Skipti það engum togum að Berserkir gersigruðu Grænhúfur í snörpum bardaga þar sem allt fauk af sem af gat fokið. Söfnuðust síðan allir kapparnir til Valhallar og risu upp sem í hið fyrra sinn.
Grænhúfum þótti illa að sér vegið og sóru þess dýra eið að færa Þormóði þursaspreng höfuðið af Hrólfi digra foringja Berserkja á stjaka, þannig að ekki stæði annað eftir af flokki þeim en höfuðlaus her. Tókst Grænhúfum með slægð, fjölkynngi og fordæðuskap að grípa Hróf digra í bólinu. Náðu þeir slíku taki um hreðjar honum að gat hann sig hvergi hreyft, heldur aðeins stunið. Stýfðu þeir þá af honum höfuðið, fyrst hið efra og síðan hið neðra. Var Hrólfur digri þar með allur og var það mikill skaði. Er Berserkir sáu foringja sinn fallinn misstu þeir móðinn og gerðu Grænhúfur þá þar með út um hinn þriðja bardaga.
Eftir að menn höfðu safnast til Valhallar í þriðja sinn og endurnýjast af lífum, þreki og þrótti, hófst hinn fjórði bardagi. Hétu Berserkir því frammi fyrir Nirði, Frigg og Freyju að hefna Hrólfs hins digra grimmilega. Fylltust þeir þá slíkum vígamóði að aldrei hefur þvílíkur atgangur sést í bardaga á landi voru. Hrollaugur hinn grimmi gekk berserksgang og tróð allar þær Grænhúfur undir fótum sér er fyrir honum urðu uns hann komst í færi við Þormóð þursaspreng. Kastaði hann þá að honum handsprengjum hverri á fætur annarri uns Þormóður stóð eftir óvígur með iðrin úti. Vatt Hrollaugur sér þá að honum og festi görn hans við níðstöng þá er hann hafði reisa látið í fordæðuskap gegn Hrólfi digra. Lét Hrollaugur grimmi þvínæst Þormóð þursaspreng ganga hringi í kring um stöngina uns öll görnin var úr honum rakin. Lét þá Þormóður þar líf sín öll með mikilli hreysti. Grænhúfur þær sem ekki hafði tekist að murka úr lífin, flúðu nú af hólmi eins og rófulausir hundar. Lauk þar með hinum fjórða bardaga.
Um síðir söfnuðust svo allir kapparnir aftur saman í Valhöll og var þá dagur að kveldi kominn. Upphófst þá ölteiti mikið þar sem menn drukku hvers annars skál og sungu dróttkvæðar vísur. Ágerðist teitið eftir því sem á kvöldið leið og þegar nótt var komin svifu menn inn í unaðslegt algleymi fyrir tilstilli Opals og Tópas.
Athugasemdir
Mögnuð saga og mikil ritsnilld!
Mér skilst að sárir hafi fengið töframjöð og orðið heilir, hálfir eða eftir atvikum fullir.
Geiri Grimmi (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 08:53
Snilldartexti, þú kemur sífellt á óvart.
Bryndís (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 08:57
Vildi ég sagt hafa að hér er um einkar nákvæma lýsingu á atburðum þessum að ræða. Undirritaður var einn af þeim er missti ýmist lim eða limi í bardögum þessum þrátt fyrir mikla einbeitingu og færni við meðhöndlun vopna og verja. Alltaf var einhver fyrri til að höggva til undirritaðs.
Hlakka til næsta bardaga svo hægt verði að hefna ófara vorra.
Gasmaðurinn
Gasman (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 10:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.